Meðhöndlun á ull
Þvottaleiðbeiningar
Álafoss Lopi, Bulky Lopi og Létt-Lopi: Þvoið flíkina einungis í höndum í ylvolgu vatni (30°C). Látið flíkina liggja í sápuvatninu í u.þ.b. 10 mínútur, hafið skolvatnið jafnheitt þvottavatninu. Ath. skolið mjög vel, eða þar til vatnið er alveg tært. Nuddið flíkina hvorki né vindið heldur kreistið úr henni vatnið. Að lokum má setja flíkina í þeytivindu í u.þ.b. 1/2 mínútu. Leggið flíkina til þerris og sléttið hana í viðeigandi mál. Plötulopi: Flíkur úr Plötulopa eru þvegnar eins og flíkur úr Álafoss Lopa, Bulky Lopa eða Létt-Lopa að því undanskildu að í fyrsta þvotti má alls ekki láta flík úr Plötulopa liggja í bleyti. Þvoið flíkina strax með því að kreista hana í þvottavatninu og skolið flíkina strax að loknum þvotti í ylvolgu vatni. Ath. skolið mjög vel, eða þar til vatnið er alveg tært. Athugið: Oft er nóg að viðra ullarflík vel í stað þess að þvo hana.
Plötulopi
Hægt er að prjóna Plötulopann einfaldan, tvöfaldan eða margfaldan, allt eftir því hversu grófur þráðurinn á að vera. Takið lausa endann úr miðjunni og utan af hverri lopaplötu og vindið þræðina saman upp í hnykil.
Notið Álafoss Lopa og Létt-Lopa í sömu flíkina!
Þar sem tveir þræðir af Létt-Lopa gefa svipaðan grófleika og einn þráður af Álafoss Lopa, er hægt að nota þessar tvær lopategundir í sömu flíkina og auka þannig litaúrvalið úr 62 litum í 99 liti. Auka má enn frekar á fjölbreytnina með því að nota tvo mismunandi liti af Létt-Lopa saman.
Plötulopi eða Álafoss Lopi